Guðbjörg Ragnarsdóttir

Jákvæðni og sköpunarþrá er allt sem þarf!

Viðtal við Guðbjörgu Ragnarsdóttir sem er starfsmaður í Fab Lab og nemandi í Fab Academy. Guðbjörg er Eyjamær, fædd og uppalin í Vestmanneyjum, bjó lengi vel í Danmörku og býr nú í Breiðholtinu.  Hún er einstæð móður með tvö börn og þrjár kisur. 

Guðbjörg uppgötvaði Fab Lab smiðjuna í Fellagörðum síðasta vor og var upp frá því tíður gestur í smiðjunni með allskonar verkefni.  Málin þróuðust þannig að í nóvember síðastliðnum tók hún við  50% starfi hjá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti með stuðningi frá Vinnumálastofnun og Menntun núna verkefninu.  Í janúar hóf Guðbjörg síðan nám í Fab Academíunni sem hún lýkur í júní en námið er alþjóðlegt og er skipulagt af samstarfsneti Fab Lab smiðja í heiminum frá smiðjunni sem rekin er í tengslum við MIT háskólann í Bandaríkjunum.  Námið veitir þátttakendum réttindi sem leiðbeinandi í Fab Lab smiðjum víða um heim.

Hvað er svona spennandi við Fab Lab

Fyrst og fremst sá möguleiki að koma í framkvæmd einhverjum af þeim óteljandi hugmyndum sem ég er með í kollinum. Ég hef alveg frá því ég man eftir mér verið að hanna og þróa alls konar hugmyndir og handverk.   Fab Lab gefur manni tækifæri að þróa áfram sínar hugmyndir án þess að kosti mann handlegg.  Guðbjörg er sjálf búin að hanna og þróa ýmislegt í smiðjunni,  merki á boli, klukku, límmiða og jólagjafir auk þess að vera búin að hjálpa ótal mörgum hönuðum og hugmyndasmiðjum, Það er svo skemmtilegt að taka á móti fólki með þennan sama áhuga á að skapa, aðstoða það og sjá hugmyndir þess verða að veruleika, það er einhver glampi og hrein gleði sem kviknar innra með fólki í ferlinu og þegar hugmyndin er orðin að veruleika segir Guðbjörg.

En hvernig gengur í Fab Academy sem er nánast fullt nám með vinnu?gudbjorg mynd 2

 Þetta var erfiðara en ég hélt en ég er búin að læra alveg ótrúlega mikið.  Við erum nánast komin í gegnum allar stöðvarnar, vinnum með öll tækin og forritin sem stuðst er við í smiðjunni en það hefur verið sérstaklega gaman að kynnast betur rafmagnshorninu og stóru fræsivélinni en mitt síðasta verkefni var að hanna og skera út hillur í fræsivélinni.  Við erum að byrja að vinna í lokaverkefninu sem á að skila 10. júní.  Ég er búin að vera með margar hugmyndir í kollinum en held ég sé komin niður á þá sem mig langar að vinna með sem lokaverkefni en það er spiladós sem er ekki einsog í gamla daga heldur meira takkar og ljós, en með þessu næ ég að nota sem flestar vélar.

En hefur ekki verið mikið álag á þér og hvað segir fjölskyldan?  Börnin mín eru mjög ánægð með pizzurnar sem hafa verið óvenjuoft á borðum síðan námið hófst, en þau eru að vísu komin á unglingsaldur en ég gæti ábyggilega ekki verið á fullu í öllum þessum verkefnum ef krakkarnir væru yngri, sérstaklega ekki þar sem maður er einn með þau.

Þú hefur verið að kljást við erfið veikindi, hvernig fórst þú að þessu? 

Veikindi mín voru það mikil að mér var tjáð að ég þyrfti að sætta mig við stöðun þ.e að geta varla lyft glasi þegar ég var sem verst.   Ég var ekki sátt við þessi skilaboð og tók ákvörðun um að láta veikindin ekki taka svo mikið pláss í mínu lífi, segja frekar við sjálfan mig „Ég er hraust, ég er glöð, ég er sterk og eitthvað jákvætt“ endurtaka þetta oft á dag og á hverjum degi og það hjálpaði strax. Samhliða fór ég að taka inn vítamínbombu sem kallast Balance Shake með Omega3 fitusýrum og það hefur hjálpað mér með það sem upp á vantaði en í dag er ég verkjalaus og lyfjalaus.

Hvað sérð þú fyrir þér að gera í framtíðinni? 

Ég vildi gjarnan eiga eigið verkstæði í framtíðinni en mér finnst líka mjög gaman að hjálpa fólki með þeirra hugmyndir og upplifa gleðina sem fylgir því að láta þær verða að veruleika, þá finnur maður að maður er að gera góða hluti, láta gott af sér leiða.  Líklega væri skemmtilegast að geta gert hvoru tveggja, unnið að eigin hugmyndum á sínu verkstæði samhliða því að leiðbeina öðrum.

Í allra nánustu framtíð þá dreymir mig um að fara til Boston á Fab 11 sem er bæði ráðstefna og útskrift úr Fab Ackademíunni sem verður í ágúst eða  í kringum Versunarmannahelgina.  Líklega er þetta eini viðburðurin sem ég myndi fórna Þjóðhátíðinni segir Guðbjörg.