Fab Lab hvergi eins aðgengilegt almenningi

Viðtal við Bas Withagen og Lindu Wanders leiðbeinendur í Fab Lab Reykjavík í Fellagörðum 3. júlí síðastliðinn en þau Fab Lab opnaði 24. janúar 2014.   

Bas og Linda eru frá Delft í Hollandi, Bas er rafmagnsverkfræðingur og starfaði um árabil í Fab Lab smiðjunni í Amsterstam og Linda er grafískur hönnuður og kennari og starfaði sem slíkur og hóf störf í Fab Lab í framhaldi af námi sínu í Fab Academy sem hún lauk sumarið 2014.

Þið eruð par, hvernig kynntust þið? 

Við kynntumst fyrir 10 árum þegar við unnum saman í bókabúð.  Fyrir tilviljun þá gerðist það að sumarfrísplön þeirra beggja breyttust sem varð til þess að þau ákváðu að fara saman í ferðalag í nokkrar vikur, eitt leiddi af öðru og ástin kviknaði.

Hvað varð til þess að þið komuð til Íslands?  

Bas hitti Frosta Gíslason, sem er verkefnisstjóri í Fab Lab smiðjunni í Vestmannaeyjum, sumarið 2013  í tengslum við alþjóðleg ráðstefnu í Japan sem haldin var í tengslum við Fab Academy sem er alþjóðlegt nám fyrir leiðbeinendur í Fab Lab.  Bas lauk náminu 2012 og var leiðbeinandi í því 2013 samhliða því að taka þátt í að skipuleggja námið.   Á ráðstefnunni minntist Bas á það við Frosta að hann væri að leita að öðru starfi en þá var hann búinn að vera vinna í Amsterdam í 5 ár og langaði að takast á við ný verkefni.  Á þessum tíma á Íslandi var verið að undirbúa stofnun Fab lab Reykjavík þannig að það var starf á lausu og Bas og Linda ákváðu að stökkva á þetta tækifæri.  Við lentum síðan í Keflavík 6. janúar 2014 en Fab Lab Reykjavík opnaði 24. janúar.

Hvað er svona sérstakt við Fab Lab?   

Fab Lab gerir einstaklingum kleift að koma og læra á eigin forsendum og hraða.  Fab Lab er ekki fyrir alla en smiðjan  gerir fólki kleift að vera það sjálft og skapa það sem því langar að skapa, hvort sem um er að ræða heimavinnandi húsmóður eða vöruhönnuð, segir Bas.   Fab Lab er getur hentað öllu aldurshópum frá 8 ára upp í 80+,  verkefnin geta verið einföld og flókin og allir eru velkomnir að prufa sig áfram.  Áhuginn kviknar kannski hjá krökkunum af því að þeir sjá eitthvað flott og langar að búa til eitthvað svipað, aðrir hafa vilja kanna hvort þeir geti smíðað íhluti í tæki sem hafa brotnað eða einhver kemur inn og segir  „ég er með þessa hugmynd, er hægt að hanna hana hér og prófa?“. Það eru endalausir möguleikar sem opnast fyrir alla sem hafa áhuga, segir Linda.

Við vinnum líka talsvert með hönnuðum og þess má geta að 3-4 verkefni sem voru unnin í Fab Lab tóku þátt í Hönnunarmars í ár.  Auk þess eru mörg verkefni sem eru þróuð að hluta til í Fab Lab bæði af einstaklingum, hönnuðum og fyrirtækjum.

Hefur staðsetning Fab Lab í Breiðholtinu styrkt ímynd hverfisins?   

Fab Lab hefur gert mikið fyrir hverfið og Fellagarða sem voru í niðurnýðslu þegar smiðjan var sett upp, Nýlistarsafnið er komið hér við hliðina á okkur, verið er að ljúka byggingu á nýrri íbúðablokk og ný fyrirtæki hafa verið að setja upp starfsemi sína hér, segir Bas.  Það eru sífellt fleiri sem kíkja við hjá okkur af götunni og oft hefur þessi áhugi þróast þannig að fólk fari að vinna að hugmyndum sínum, taki vini sína og fjölskyldur með segir Linda.

Kosturinn við Fab Lab hér í Breiðholtinu að við erum búðargluggi, fólk getur kíkt inn, skoðað án skuldbindinga, við erum aðgengilegri en almennt gengur og gerist með Fab Lab víðast hvar þar sem smiðjurnar eru staðsettar inn í stofnunum eða fyrirtækjum. Við erum oft spurð að því afhverju við séum ekki staðsett í miðbænum og svar okkar við því er að það er tiltölulega auðvelt að komast hingað en 3 leiðir í Strætó stoppa beint fyrir utan smiðjuna og það er nóg af bílastæðum sem kosta ekkert, segir Bas.

Hvernig sjáið þið samstarfið við grunn- og framhaldsskólana þróast?  

Áherslan hjá okkur er að þjálfa kennara í að nýta sér Fab Lab í kennslu og starfsþjálfun. Það er enginn vafi á því að það eru endalaus tækifæri til að þróa frekara samstarf við skólana og það er jafn ljóst að ein Fab Lab smiðja á Höfuðborgarsvæðinu mun ekki geta mætt þeirri eftirspurn sem þá mun skapast, segir Linda.  Vissulega er þjálfun kennara lykilatriði en oft náum við betur til nemendanna sem síðan ýta við sínum samnemendum, foreldrum og kennurum.  Við vinnum bæði frá grasrótinni með því að kveikja áhuga almennings og ungmenna og útfrá kerfunum t.d. með þjálfun kennara, segir Bas.

Með því að tvinna stafræna hönnun og frumgerðasmíð inn í nám þá bætir það nýrri vídd við námið þar sem nemendur eru við útskrift komnir með reynslu af vöruþróun og jafnvel búnir að stíga sín fyrstu skref sem frumkvöðlar eða framleiðendur.  Við erum að fá fréttir af því að nemendur úr FB sem tóku hluta af námi sínu hér í Fab Lab eiga meiri möguleika á að komast inn í tækni- og verkfræði í HÍ og HR sem og listnám í Listaháskólanum.

Stefnið þið að því að vera áfram á Íslandi eða er eitthvað annað í kortunum?   

Ísland er fínt, en ég held að við getum ekki búið við svo mikla sumarbirtu mikið lengur enda ólíkt því sem við eigum að venjast.  Ég get alveg höndlað myrkrið á veturnar þó ég sé ekki viss um að mig langi að upplifa annan eins vetur og þann sem var að líða.  Okkur langar að vinna áfram í Fab Lab og viljum gjarnan ferðast um heiminn og vinna í ólíkum smiðjum eftir að flytjum frá Íslandi en samningurinn við Bas rennur út um næstu áramót.

Ljósmynd og video: Sigurbjörg Jóhannesdóttir